Þolendur kynbundins ofbeldis eru meira en vettvangur glæps!

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2022, voru dómsmálaráðherra afhentar yfir 12.000 undirskriftir fólks sem skorar á hann að bæta réttarstöðu brotaþola. Undirskriftunum var safnað í átakinu Vettvangur glæps sem vísar til þess að þolendur kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis eru aðeins vitni í eigin málum í réttarkerfinu. Þannig hafa brotaþolar ekki beina aðkomu að málum sínum í réttarkerfinu, upplifa sig utangátta og oft sem ekki annað en vettvang glæps – glæps sem kemur þeim síðan ekki við í meðförum réttarkerfisins.
Krafa þeirra kvenna sem fóru fyrir undirskriftasöfnuninni og þeirra 12.000 sem rituðu undir er að brotaþolar fái aðild að málum sínum í réttarkerfinu sem myndi veita þeim jöfn réttindi á við sakborning. Staðan í dag er að gerandi ofbeldisins hefur mun meiri réttindi í réttarkerfinu sem viðheldur þeim valdamismun sem er á milli geranda og þolanda.

Ráðherra tók við undirskriftunum á Stígamótum í dag en hér ávarp Lindu Bjargar Guðmundsdóttur sem hún flutti fyrir dómsmálaráðherra við tilefnið:
„Kæri dómsmálaráðherra,

Þú hefur einstakt tækifæri, mjög mikilvægt tækifæri í höndum þínum. Tækifæri sem skiptir mig og baráttusystur mínar öllu máli. Við stigum fram fimm, en á bak við okkur eru hundruðir upplifana og hundruðir með svipaða reynslu og við. Og nú er ég ekki að tala um þá sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi því sú tala er því miður mun hærri en nokkurn skyldi óra fyrir, en hér tala ég um upplifun og reynslu af réttarkerfinu.

Spurningar eins og af hverju kæra þær ekki eða af hverju fer málið ekki rétta leið er alltaf erfitt að heyra og flókið að svara. En ég veit að þær sem standa hér með mér vita það mæta vel, af hverju mál eru ekki kærð. Af hverju sú, að því að virðist rökrétta, leið sé ekki valin.

Þegar brotið er á þér missir þú allt traust, þú missir stjórn, þú missir gleðina. Allt þetta tekur mislangan tíma að vinna inn aftur og fyrir suma er sú vinna dagleg barátta. En þegar réttarkerfið virkar ekki rétt, virkar þess í stað íþyngjandi, ótraustvekjandi og óyfirstíganlegt þá missir maður vonina. Ég get allavega sagt það að frá mínum dyrum séð er það eitthvað sem þú nærð ekki að vinna upp aftur, allavega ekki að öllu óbreyttu.

Áskorunin sem yfir 12.000 manns hafa skrifað undir er ekki að biðja um meira né minna en jafna réttarstöðu á við sakborning. Sérfræðingar í þessum málum geta og hafa eflaust frætt þig og aðra sem að málunum standa hvers vegna jöfn staða skiptir okkur öll máli. Ekki láta bitra reynslu okkar, og allra þeirra sem ekki geta staðið hér fyrir framan þig, verða til einskis. Nýttu tækifærið. Gefðu okkur og framtíðinni von.“

Með aðild að máli fást meðal annars réttindi til að:

/ Fá sama aðgang að gögnum á rannsóknarstigi og sakborningar
/ Sitja inni í dómsal
/ Spyrja vitni og sakborning spurninga fyrir dómi
/ Taka til máls þegar haldnar eru lokaræður á dómstigi
/ Leggja fram viðbótarsönnunargögn fyrir dómi
/ Áfrýja málinu
Júnía

Júnía

Ég kærði kynferðisbrot árið 2011. Lögreglumaðurinn sem tók af mér skýrslu var eldri karlmaður sem virtist ekki nenna vinnunni sinni. Þar var enga samúð, hlýju eða skilning að finna. Hann spurði hvernig ég hafi verið klædd og hvað ég hefði drukkið
Júnía

Linda Björg

Árið 2014 kærði ég mann fyrir ítrekuð kynferðisbrot. Eftir skýrslutökuna gerðist lítið og þögnin var þrúgandi. Hálfu ári seinna var gerandinn boðaður í skýrslutöku, en ég kveið því mest og var hrædd um viðbrögð hans. Mér þótti mikilvægt að vita hvenær hann yrði boðaður í skýrslutöku
Júnía

Sigrún Emma

Árið 2021 kærði ég mann fyrir ofbeldi í nánu sambandi, en ég hafði áður leitað aðstoðar lögreglu vegna ofsókna og ofbeldis af hans hálfu. Í fyrri skipti hafði mætt mér ömurlegt viðmót, lítillækkun og virðingarleysi – ég upplifði eins og þetta „vesen“ mitt væri ómerkilegt. Þegar kæruferlið hafði verið útskýrt fyrir mér, t.d. að hann myndi ganga laus á meðan málið væri í rannsókn, þorði ég ekki að kæra
Júnía

Þórdís

Ég kærði barnsföður minn og eiginkonu hans fyrir ofbeldi gegn mér árið 2016. Eftir að ég lagði fram kæru til lögreglu missti ég röddina, á mig var ekki hlustað og um leið og saksóknari tók málið í sínar hendur upplifði ég að réttur minn væri hrifsaður af mér, ég varð utangátta. Ég var útilokuð af saksóknara
Júnía

Hafdís

Ég var 15 ára þegar ókunnugur maður nauðgaði mér. Ég var bara barn en enginn hjálpaði mér að skilja hvað hafði gerst eða hjálpaði mér með áfallið. Enginn útskýrði kæruferlið fyrir mér eða spurði mig álits á neinu. Ég var bara aukahlutur og enginn með mér í liði

Taktu þátt!

Notaðu Vettvangur glæps filterinn á Instagram til að dreifa boðskapnum, segja þína eigin sögu eða til að sýna öllum brotaþolum stuðning og samstöðu
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram