Hafdís

Ég var 15 ára þegar ókunnugur maður nauðgaði mér. Ég var bara barn en enginn útskýrði fyrir mér á mannamáli hvað hafði gerst eða hjálpaði mér með áfallið. Enginn útskýrði kæruferlið fyrir mér eða spurði mig álits á neinu. Ég var bara aukahlutur og enginn með mér í liði.

Á þessum tíma skilgreindu lögin þetta brot ekki sem nauðgun heldur „tilraun til nauðgunar“ og allir í ferlinu notuðu það orðalag. Það lét mér líða eins og ekkert hefði í raun komið fyrir, honum hefði greinilega ekkert tekist að nauðga mér. Í langan tíma talaði ég um árásina út frá þessari skilgreiningu, en ekki minni upplifun. Ég hætti að treysta minni eigin sannfæringu.

Þar sem ég var barn mátti ég ekki mæta í réttarsal og var því tekin af mér skýrsla á myndbandsupptöku. Þegar ég mætti í skýrslutöku var mér sagt að gerandinn og verjandi hans fengju að fylgjast með skýrslutökunni. Ég varð dauðhrædd og læsti mig grátandi inni á baði. Loks var ég sótt og látin gefa skýrsluna en gat varla hugsað um annað en að hann væri að horfa á mig á meðan ég lýsti því sem gerðist.

Þremur árum eftir að ég kærði kom niðurfellingarbréfið án nokkurrar viðvörunar né eftirfylgni. Þrátt fyrir að hafa verið barn við brotið, var ég nú orðin 18 ára og bréfið því stílað á mig. Ég vissi ekki hvað „málinu er vísað frá“ þýddi og hélt að merkingin væri sú að hann hefði ekkert gert af sér. Ég sagði engum frá bréfinu, reif það í tætlur og missti eiginlega vitið í nokkur ár. 

Að fara í gegnum kæruferli var áfall ofan í áfallið. Ég myndi aldrei leggja það á mig aftur. 

linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram