Ég kærði barnsföður minn og eiginkonu hans fyrir ofbeldi gegn mér árið 2016. Eftir að ég lagði fram kæru til lögreglu missti ég röddina, á mig var ekki hlustað og um leið og saksóknari tók málið í sínar hendur upplifði ég að réttur minn væri hrifsaður af mér, ég varð utangátta. Ég var útilokuð af saksóknara, þar sem samkvæmt framkvæmdinni má ég ekki hafa áhrif á hann og samskipti við hann skulu engin vera. Mér var brugðið þar sem með kæru minni var ég að kalla á hjálp og hélt að saksóknari yrði minn talsmaður. Svo varð ekki og fyrir vikið heyrðist mín rödd aldrei. Ég hitti saksóknara aldrei á þessu rúmu tveggja ára tímabili sem málið vaggaði í dómskerfinu. Ég skipti engu máli, vilji minn og upplifun mín voru algjört aukaatriði.
Meðan á aðalmeðferð stóð fyrir dómi fengu gerendur mínir heilan dag með dómsvaldinu - til að sanna sakleysi sitt og ágæti, og mála mig upp sem geðveika. Þau sátu í dómsal allan tímann og gátu talað sjálf þegar þau vildu og í gegnum lögmenn sína. Ég fékk rúman hálftíma í héraðsdómi og þurfti að fara út úr dómsalnum þegar ég lauk máli mínu, eins og mér kæmi þetta ekkert við. Sá stutti tími sem ég kom fyrir dóminn var ekki til að tala út frá mínu hjarta, heldur til að svara spurningum saksóknara og tilraunum verjenda til að véfengja verknaðinn og geðheilsu mína. Ég, þolandinn og vitnið, var sett í þá stöðu að þurfa að verja mig.
Eftir sakfellingu barnsföður míns í héraði gat hann áfrýjað, en eiginkona hans var sýknuð í héraði. Það sem leiddi til sýknu í Landsrétti var álitsgerð læknis sem var lögð fram af kröfu barnsföður míns og greidd af honum. Ég hafði engan rétt til að leggja fram mikilvæg gögn eða véfengja mat læknis sem hafði aldrei hitt mig.
Fyrir mér var allt þetta ferli ofbeldi og alls ekki sú heilun og réttlæti sem ég var að leita eftir, hélt að ég fengi og ætti rétt á.