Árið 2014 kærði ég mann fyrir ítrekuð kynferðisbrot. Eftir skýrslutökuna gerðist lítið og þögnin var þrúgandi. Hálfu ári seinna var gerandinn boðaður í skýrslutöku, en ég kveið því mest og var hrædd um viðbrögð hans. Mér þótti mikilvægt að vita hvenær hann yrði boðaður í skýrslutöku svo ég gæti undirbúið mig. Mér var sagt að skýrslutakan hans yrði í maí en svo kom í ljós að skýrslutökunni hafði verið frestað fram á sumar og ég ekki látin vita, svo ég upplifði endurtekinn kvíða og ógleði.
18 mánuðum eftir kæruna kom niðurfellingarbréfið óvænt. Engin viðvörun, ekkert samtal, enginn sem horfði í augun á mér og útskýrði. Svo algjörlega ómannlegt. Ég var viss um að málið færi í ákæru því eitt brotið var til á upptöku. Það sem hafði hvað mest áhrif á mig er reiðin gagnvart niðurfellingunni og sú staðreynd að ég gat ekkert aðhafst meira í mínu máli. Það er eitt þegar óbreyttur borgari brýtur á manni, en annað þegar kerfið sem ég treysti á lét ekki á það reyna að koma málinu áfram.
Nokkru síðar fékk ég að sjá málsgögnin mín hjá saksóknara. Eina ljósið í öllu saman var að fá að lesa yfir skýrslutöku gerandans og sjá að hann var spurður gagnrýninna spurninga. Hann var látinn svara fyrir það af hverju hann stoppaði ekki eftir að ég hafði ítrekað sagt ,,hættu“ og ,,stopp“ á upptökunni. Þarna fann ég fyrst að einhver í kerfinu hafði líka séð ofbeldið. Ég vildi bara að ég hefði fengið eitthvað réttlæti út úr kerfinu.