Árið 2021 kærði ég mann fyrir ofbeldi í nánu sambandi, en ég hafði áður leitað aðstoðar lögreglu vegna ofsókna og ofbeldis af hans hálfu. Í fyrri skipti hafði mætt mér ömurlegt viðmót, lítillækkun og virðingarleysi – ég upplifði eins og þetta „vesen“ mitt væri ómerkilegt. Þegar kæruferlið hafði verið útskýrt fyrir mér, t.d. að hann myndi ganga laus á meðan málið væri í rannsókn, þorði ég ekki að kæra.
En ofbeldið hætti ekki, og eftir nauðsynlega aðstoð fagaðila og minna nánustu var ekkert annað í stöðunni en að kæra. Ég trúði því að þá myndi lífið lagast. Það gerðist ekki. Mér var sagt að nálgunarbann væri eingöngu formsatriði og við jafn alvarlegu máli yrði sannarlega brugðist með hraði. Það gerðist ekki. Í kæruferlinu kom í ljós að ýmis sönnunargögn voru orðin of gömul og ónothæf, sem engum datt í hug að segja mér frá þegar ég leitaði fyrst til lögreglunnar.
Ég var logandi hrædd við gerandann og óttaðist mjög viðbrögð hans við kærunni. Svo leið tíminn, ég beið milli vonar og ótta eftir að hann yrði boðaður í skýrslutöku. Fyrstu mánuðina sendi ég tölvupósta nánast vikulega til að kanna stöðuna, oftast fékk ég ekkert svar en stundum komu lélegar afsakanir á biðinni. Aðstandandi minn sendi langan tölvupóst á stjórnendur Lögreglunnar og aðila að mínu máli - um stöðu mála, aðgerðaleysið, biðina og áhrifunum á mig og mína nánustu. Ekkert svar.
Eftir 9 mánuði hafði gerandinn enn ekki verið boðaður til skýrslutöku. Þá gat ég ekki meir, hafði ekki andlegt bolmagn í meiri bið. Ég tilkynnti Lögreglunni að ég vildi falla frá kæru – þungu fargi var af mér létt þann dag. Við þeim tölvupósti fékk ég svar: erindið móttekið!
Tómlæti, þögn og aðgerðarleysi af hálfu yfirvalda, sem ég áður treysti, hefur valdið mér gríðarlegri vanlíðan og stöðugum kvíða. Ég dáist að þeim þolendum sem þrauka allt ferlið. Þetta lagaumhverfi er svo gerendavænt að í langflestum tilvikum hefur það nákvæmlega engar afleiðingar að beita manneskju ofbeldi. Þá staðreynd að kæran hefur valdið mér meiri skaða en gerandanum er erfitt að sætta sig við. Að safna styrk og finna loks hugrekkið til að kæra…. til þess eins að upplifa meiri sársauka, ótta og kvíða - því verður ekki lýst með orðum.