Ég var 15 ára þegar ókunnugur maður nauðgaði mér. Ég var bara barn en enginn útskýrði fyrir mér á mannamáli hvað hafði gerst eða hjálpaði mér með áfallið. Enginn útskýrði kæruferlið fyrir mér eða spurði mig álits á neinu. Ég var bara aukahlutur og enginn með mér í liði.

Á þessum tíma skilgreindu lögin þetta brot ekki sem nauðgun heldur „tilraun til nauðgunar“ og allir í ferlinu notuðu það orðalag. Það lét mér líða eins og ekkert hefði í raun komið fyrir, honum hefði greinilega ekkert tekist að nauðga mér. Í langan tíma talaði ég um árásina út frá þessari skilgreiningu, en ekki minni upplifun. Ég hætti að treysta minni eigin sannfæringu.

Þar sem ég var barn mátti ég ekki mæta í réttarsal og var því tekin af mér skýrsla á myndbandsupptöku. Þegar ég mætti í skýrslutöku var mér sagt að gerandinn og verjandi hans fengju að fylgjast með skýrslutökunni. Ég varð dauðhrædd og læsti mig grátandi inni á baði. Loks var ég sótt og látin gefa skýrsluna en gat varla hugsað um annað en að hann væri að horfa á mig á meðan ég lýsti því sem gerðist.

Þremur árum eftir að ég kærði kom niðurfellingarbréfið án nokkurrar viðvörunar né eftirfylgni. Þrátt fyrir að hafa verið barn við brotið, var ég nú orðin 18 ára og bréfið því stílað á mig. Ég vissi ekki hvað „málinu er vísað frá“ þýddi og hélt að merkingin væri sú að hann hefði ekkert gert af sér. Ég sagði engum frá bréfinu, reif það í tætlur og missti eiginlega vitið í nokkur ár. 

Að fara í gegnum kæruferli var áfall ofan í áfallið. Ég myndi aldrei leggja það á mig aftur. 

Ég kærði barnsföður minn og eiginkonu hans fyrir ofbeldi gegn mér árið 2016. Eftir að ég lagði fram kæru til lögreglu missti ég röddina, á mig var ekki hlustað og um leið og saksóknari tók málið í sínar hendur upplifði ég að réttur minn væri hrifsaður af mér, ég varð utangátta. Ég var útilokuð af saksóknara, þar sem samkvæmt framkvæmdinni má ég ekki hafa áhrif á hann og samskipti við hann skulu engin vera. Mér var brugðið þar sem með kæru minni var ég að kalla á hjálp og hélt að saksóknari yrði minn talsmaður. Svo varð ekki og fyrir vikið heyrðist mín rödd aldrei. Ég hitti saksóknara aldrei á þessu rúmu tveggja ára tímabili sem málið vaggaði í dómskerfinu. Ég skipti engu máli, vilji minn og upplifun mín voru algjört aukaatriði.  

Meðan á aðalmeðferð stóð fyrir dómi fengu gerendur mínir heilan dag með dómsvaldinu - til að sanna sakleysi sitt og ágæti, og mála mig upp sem geðveika. Þau sátu í dómsal allan tímann og gátu talað sjálf þegar þau vildu og í gegnum lögmenn sína. Ég fékk rúman hálftíma í héraðsdómi og þurfti að fara út úr dómsalnum þegar ég lauk máli mínu, eins og mér kæmi þetta ekkert við. Sá stutti tími sem ég kom fyrir dóminn var ekki til að tala út frá mínu hjarta, heldur til að svara spurningum saksóknara og tilraunum verjenda til að véfengja verknaðinn og geðheilsu mína. Ég, þolandinn og vitnið, var sett í þá stöðu að þurfa að verja mig. 

Eftir sakfellingu barnsföður míns í héraði gat hann áfrýjað, en eiginkona hans var sýknuð í héraði. Það sem leiddi til sýknu í Landsrétti var álitsgerð læknis sem var lögð fram af kröfu barnsföður míns og greidd af honum. Ég hafði engan rétt til að leggja fram mikilvæg gögn eða véfengja mat læknis sem hafði aldrei hitt mig. 

Fyrir mér var allt þetta ferli ofbeldi og alls ekki sú heilun og réttlæti sem ég var að leita eftir, hélt að ég fengi og ætti rétt á.

Árið 2021 kærði ég mann fyrir ofbeldi í nánu sambandi, en ég hafði áður leitað aðstoðar lögreglu vegna ofsókna og ofbeldis af hans hálfu. Í fyrri skipti hafði mætt mér ömurlegt viðmót, lítillækkun og virðingarleysi – ég upplifði eins og þetta „vesen“ mitt væri ómerkilegt. Þegar kæruferlið hafði verið útskýrt fyrir mér, t.d. að hann myndi ganga laus á meðan málið væri í rannsókn, þorði ég ekki að kæra.

En ofbeldið hætti ekki, og eftir nauðsynlega aðstoð fagaðila og minna nánustu var ekkert annað í stöðunni en að kæra. Ég trúði því að þá myndi lífið lagast. Það gerðist ekki. Mér var sagt að nálgunarbann væri eingöngu formsatriði og við jafn alvarlegu máli yrði sannarlega brugðist með hraði. Það gerðist ekki. Í kæruferlinu kom í ljós að ýmis sönnunargögn voru orðin of gömul og ónothæf, sem engum datt í hug að segja mér frá þegar ég leitaði fyrst til lögreglunnar.

Ég var logandi hrædd við gerandann og óttaðist mjög viðbrögð hans við kærunni. Svo leið tíminn, ég beið milli vonar og ótta eftir að hann yrði boðaður í skýrslutöku. Fyrstu mánuðina sendi ég tölvupósta nánast vikulega til að kanna stöðuna, oftast fékk ég ekkert svar en stundum komu lélegar afsakanir á biðinni. Aðstandandi minn sendi langan tölvupóst á stjórnendur Lögreglunnar og aðila að mínu máli - um stöðu mála, aðgerðaleysið, biðina og áhrifunum á mig og mína nánustu. Ekkert svar.

Eftir 9 mánuði hafði gerandinn enn ekki verið boðaður til skýrslutöku. Þá gat ég ekki meir, hafði ekki andlegt bolmagn í meiri bið. Ég tilkynnti Lögreglunni að ég vildi falla frá kæru – þungu fargi var af mér létt þann dag. Við þeim tölvupósti fékk ég svar: erindið móttekið!

Tómlæti, þögn og aðgerðarleysi af hálfu yfirvalda, sem ég áður treysti, hefur valdið mér gríðarlegri vanlíðan og stöðugum kvíða. Ég dáist að þeim þolendum sem þrauka allt ferlið. Þetta lagaumhverfi er svo gerendavænt að í langflestum tilvikum hefur það nákvæmlega engar afleiðingar að beita manneskju ofbeldi. Þá staðreynd að kæran hefur valdið mér meiri skaða en gerandanum er erfitt að sætta sig við. Að safna styrk og finna loks hugrekkið til að kæra…. til þess eins að upplifa meiri sársauka, ótta og kvíða - því verður ekki lýst með orðum.

Árið 2014 kærði ég mann fyrir ítrekuð kynferðisbrot. Eftir skýrslutökuna gerðist lítið og þögnin var þrúgandi. Hálfu ári seinna var gerandinn boðaður í skýrslutöku, en ég kveið því mest og var hrædd um viðbrögð hans. Mér þótti mikilvægt að vita hvenær hann yrði boðaður í skýrslutöku svo ég gæti undirbúið mig. Mér var sagt að skýrslutakan hans yrði í maí en svo kom í ljós að skýrslutökunni hafði verið frestað fram á sumar og ég ekki látin vita, svo ég upplifði endurtekinn kvíða og ógleði.

18 mánuðum eftir kæruna kom niðurfellingarbréfið óvænt. Engin viðvörun, ekkert samtal, enginn sem horfði í augun á mér og útskýrði. Svo algjörlega ómannlegt. Ég var viss um að málið færi í ákæru því eitt brotið var til á upptöku. Það sem hafði hvað mest áhrif á mig er reiðin gagnvart niðurfellingunni og sú staðreynd að ég gat ekkert aðhafst meira í mínu máli. Það er eitt þegar óbreyttur borgari brýtur á manni, en annað þegar kerfið sem ég treysti á lét ekki á það reyna að koma málinu áfram.

Nokkru síðar fékk ég að sjá málsgögnin mín hjá saksóknara. Eina ljósið í öllu saman var að fá að lesa yfir skýrslutöku gerandans og sjá að hann var spurður gagnrýninna spurninga. Hann var látinn svara fyrir það af hverju hann stoppaði ekki eftir að ég hafði ítrekað sagt ,,hættu“ og ,,stopp“ á upptökunni. Þarna fann ég fyrst að einhver í kerfinu hafði líka séð ofbeldið. Ég vildi bara að ég hefði fengið eitthvað réttlæti út úr kerfinu.

Ég kærði kynferðisbrot árið 2011. Lögreglumaðurinn sem tók af mér skýrslu var eldri karlmaður sem virtist ekki nenna vinnunni sinni. Þar var enga samúð, hlýju eða skilning að finna. Hann spurði hvernig ég hafi verið klædd og hvað ég hefði drukkið. Réttargæslumaður fylgdi mér í gegnum skýrslutökuna en hafði svo aldrei samband aftur. 

Eftir heilt ár af þögn kom niðurfellingarbréfið óvænt. Það var algjört áfall, ég var andlega algjörlega óviðbúin niðurfellingu. Enda var ég ekki sú fyrsta sem kærði hann. Ég fékk massíft kvíðakast og var lengi að jafna mig. Af hverju var ég ekki vöruð við? Ég átti bara að díla við þetta áfall alein. 

Ég myndi ekki hvetja fólk til þess að kæra. Þessi ópersónulegu samskipti og þögnin í ferlinu öllu gerðu kæruferlið mjög erfitt, ég missti traust á kerfið.  

linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram